Hreinsun með lífrænum ísogsvökvum
Almenn lýsing
Til eru margar gerðir ísogsvökva sem hægt er að nota í stað Selexol. Efnablöndur á borð við monoethylene amín (MEA) og dimethyl ethanol amín (DMEA) eru vökvar sem eru gjarnan notaðir. Þetta eru lífrænir vökvar sem fjarlægja koldíoxíð með efnahvörfum. Vökvarnir fjarlægja koldíoxíð sérhæft og því þarf minna flæði í gegnum hreinsitank. Koldíoxíðið sem losnar er mjög hreint [1] og möguleikar eru á að nýta það t.d. í ylrækt.

Fræðilega leysist ekkert metan upp í MEA og er hreinsunarferlið því einfaldara heldur en hreinsun með Selexoli [2]. Aðferðin skilar mjög hreinu metangasi eða um 99%. Þrýstingur í upptökutanki er venjulega undir 10 börum [1] og er vökvinn endurheimtur með hitun yfir suðumark og/eða með lækkuðum þrýstingi. Suðumark MEA við andrúmsloftsþrýsting er um 170°C [3] og lækkar með minnkuðum þrýstingi. Hreinsunarferlið má sjá á myndinni hér að neðan.

 

 

Þetta er í raun sama ferli og hreinsun með Selexoli að öðru leyti en því að ekki er þörf fyrir flash-tank til að draga úr metantapi. Ástæðan er sú að nánast ekkert metan er tekið upp og því er metantap virkunar minniháttar. Ef umfram varmi er nýttur í varmaskipti þá er heildarorkan sem notuð er fyrir hreinsun með MEA minni en ef notað er Selexol eða vatn [1].

Aðrir ísogsvökvar sem hægt er að nota eru til dæmis; Ucarsol, Rectisol, Flexorb og Sulfinol (upptaka án efnahvarfa) [4].

_________________________________________________________________________________

Heimildir:

[1] Krich, K. ; Augenstein, D. ; Batmale, JP ; Beneman, J. ; Rutledge, B ; Salour, S. (2005). Biomethane from Diary Waste (sk. jún ’09).

[2] Persson, M. (2003). Evaluation of ugrading techniques for biogas (sk. júní ’09).

[3] Jönsson, O. & Dahl. A. (2001). Adding gas from biomass to the grid (sk. jún ’09).

[4] Invensys APV. Heat Exchangers for Rich/Lean Amine (sk. jún ’09).

[5] de Hullu, J. ; Maassen, J.I.W. ; van Meel, P.A. ; Shazad, S ; Vaessen, J.M.P. (2008). Comparing different biogas upgrading techniques (sk. jún ’09).