Tilgangur og markmið

Landbúnaðarháskóli Íslands hefur nú um skeið unnið að verkefni sem nefnt hefur verið “Nýting á lífrænum úrgangi”. Markmið verkefnisins er að skoða sem flestar hliðar á nýtingu lífræns úrgangs og leggja mat á ávinning og kostnað hvort heldur hann er umhverfislegur, orkulegur eða fjárhagslegur. Einnig að leita leiða til að auka þann ávinning og draga úr slíkum kostnaði. Fram til þessa hefur verkefnið einkum beinst að möguleikum á að nýta lífrænan úrgang og önnur hráefni frá landbúnaði til vinnslu á metangasi.

Verkefnið hefur verið unnið í samvinnu við Sorpu B.S., Metan h.f. og verkfræðistofuna Mannvit. Verkefnisstjórar hafa verið Jón Guðmundsson (LbhÍ) og Þóroddur Sveinsson (LbhÍ). Stjórn verkefnisins hafa myndað auk þeirra þeir Björn Halldórsson (SORPU B.S. og Metan h.f.) og Teitur Gunnarsson (Mannvit). Verkefnið hefur verið styrkt af Umhverfis og Orkusjóði Orkuveitu Reykjavíkur og einnig af Orkusjóði Iðnaðarráðuneytisins 

Verkefnið hefur byggst upp af mörgum smærri verkþáttum sem hver um sig getur að verulegu leyti staðið sjálfstætt. Í heild eru þessi smærri verkefni þó hugsuð sem hluti af því viðfangsefni að kanna möguleika á, og ávinning af, að nýta margvísleg hráefni, einkum úr landbúnaði, til vinnslu á metangasi. Annað mikilvægt markmið verkefnisins hefur verið að byggja upp þekkingu og reynslu á þessu svið. Áhersla hefur því verið lögð á aðkomu nemenda og bænda. 

Meðal þeirra verkefna sem unnið hefur verið að eru eftirfarandi:

 • Uppbygging tilraunaaðstöðu til gerjunartilrauna: Settur hefur verið upp 1000 lítra gerjunartankur og einfaldur gashreinsibúnaður. (Sjá nánar hér)

 • Greining á landsvæðum sem til greina koma vegna samþættingar á landgræðslu og ræktun orkuplantna. Verkefnið var unnið sem lokaverkefni til B.S. prófs við LbhÍ. (Sjá nánar hér)

 • Metanvinnsla úr búfjáráburði í Eyjafirði – greining umhverfislegra, efnahagslegra og orkulegra þátta. Verkefnið er unnið sem meistaranámsverkefni við LbhÍ. (Sjá nánar hér)

 • Sláturúrgangur í nýju ljósi, hvaða nýtingarleiðir eru heppilegar? Samanburður á þremur nýtingarleiðum: Gasvinnsla, jarðgerð og urðun. Verkefnið er unnið sem meistaranámsverkefni í Umhverfis og auðlindafræði við HÍ. (Sjá nánar hér)

 •  Samantekt á mögulegum hreinsiaðferðum á hauggasi. Verkefnið var unnið sem sumarvinna nemanda í vélaverkfræði. Samantektin er aðgengileg hér á heimasíðunni. (Sjá hér). 

 • Könnun á möguleikum þess að hefja metanvinnslu á nokkrum býlum. Í samstarfi við nokkra bændur var gerð úttekt á möguleikum þess að hefja vinnslu á metangasi. (sjá á pdf-formi hér)

Að auki eru ýmsir verkþættir sem lögð hafa verið drög að en eru skemmra komnir eða vinna er ekki enn hafin við. 

  • Tilraunir með metanvinnslu úr mismunandi hráefni.
  • Tilraunir með breytingar á gerjunaraðstæðum með það fyrir augum að fá hreinna gas.
  • Aðlögun hreinsibúnaðar að íslenskum aðstæðum.
  • Leiðbeiningar fyrir hönnun “haughúsa” og hreinsibúnaðar fyrir metanvinnslu heima á búum.
  • Skráning á verkferlum við vinnslu hauggass.
  • Greining á hentugum plöntum vegna samþættingar landgræðslu og ræktunar orkuplantna.

Mörg þessara verkefna sem hér eru talin upp henta vel sem nemenda verkefni annað hvort sem lokaverkefni til B.S. prófs eða Meistaranáms.