Greining á landgræðslusvæðum

Samþætting á ræktun orkuplantna og landgræðslu
Ræktun orkuplantna lýtur að mörgu leyti öðrum lögmálum en ræktun plantna til manneldis eða fóðurs. Mestu skiptir að í orkuvinnslu úr plöntum er eingöngu verið að sækjast eftir orkunni hvort heldur það er á formi metans, etanóls eða lífdísils. Stærstur hluti næringarefnanna verður eftir í hratinu og er því nýtanlegur aftur sem áburður til ræktunar. Þegar horft er til orkubúskaps ræktunarinnar getur sú orka sem notuð er við framleiðslu tilbúins áburðar verið stærsti hluti (80%) af heildarorkunotkunar við ræktunina (Gissén et al 2008). Það er því eftir miklu að slægjast ef hægt er að koma ræktuninni þannig fyrir að hratið sem kemur úr orkuvinnslunni verði nýtt sem áburður í áframhaldandi ræktun. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar markmið ræktunarinnar er að framleiða orku. Ekki þarf að gera sömu kröfur til þeirra tegunda sem nýta á til orkuframleiðslu og gerðar eru ef um er að ræða fóðurplöntur eða plöntur til manneldis. Þetta útilokar ekki að margar plöntur sem ræktaðar eru sem fóðurplöntur eða til manneldis geta hentað vel til orkuvinnslu.Það eru hins vegar margvísleg neikvæð félagsleg áhrif af því að stuðla að mikilli samkeppni milli ræktunar matvæla eða fóðurjurta annars vegar og ræktunar til eldsneytisframleiðslu hins vegar. Þessi samkeppni er meðal annars talin af mörgum vera hluti skýringa á hækkunum matvælaverði í dag.

Ræktun hér á landi að skógrækt undanskilinni er einkum af tvennum toga, hefðbundin ræktun fóðurs og matjurta á um 130 þúsund hekturum og landgræðsla á um 190 þúsund hekturum. Flatarmál þess lands sem nýtt er undir ræktun fóðurs og matjurta breytist lítið ár frá ári en árlega eru um 5-10 þúsund hektarar af landi teknir er undir landgræðslu. Mögulega má nýta hluta þess lands til tímabundinnar ræktunar á orkuplöntum. Mikilvægt er þó að þær plöntur, sem notaðar eru falli vel að öðrum markmiðum landgræðslu, svo sem endurheimt á starfsemi og uppbyggingu vistkerfa. Almennt eru mjög erfið skilyrði fyrir plöntur að nema land og vaxa á örfoka landi því þar er skortur á næringarefnum, lágt hlutfall lífræns efnis og óstöðugt yfirborð með tilheyrandi frostlyftingu. Forræktun orkuplantna á örfoka landi þar sem lífrænt efni safnast fyrir getur því verið undirbúningstímabil fyrir frekari landgræðslu og af slíkri ræktun kæmu tvær gerðir afurða, annars vegar orka sem flutt er út af svæðinu og hins vegar uppbygging lífræns efnis innan svæðis sem ýtir undir framvindu gróðurs.

Ekki henta öll landgræðslusvæði til ræktunar orkuplantna. Ef vel á að takast að samþætta ræktun orkuplantna og landgræðslu er mikilvægt að meta fyrirfram það land sem ætlað er til landgræðslu út frá ákveðnum forsendum. Meðal þessara forsenda er staðsetning svæðis miðað við aðra þætti í framleiðsluferlinu, stærð svæðis og að landið sé véltækt til sláttar auk almennra ræktunarskilyrða eins og veðurfars. Notkun orkuplantna til landgræðslu getur einnig leitt til aukins ávinnings bænda af landgræðsluaðgerðum. Mikil gróska er víða í ræktun orkuplantna í hefðbundnum landbúnaði og möguleikar kunna að vera fyrir hendi að taka upp slíka ræktun hér á landi. Ekki er fyrirhugað á þessu stigi verkefnisina að skoða þá möguleika hvað sem síðar kann að verða.

Lýsing á verkþætti
Greining á landsvæðum sem til greina koma vegna samþættingar á landgræðslu og ræktun orkuplantna. Ræktun orkuplantna er af mörgum talinn fýsilegur kostur til eldsneytisframleiðslu. Orkuvinnslan úr plöntunum getur verið með ýmsum hætti t.d. metan gerjun, lífdísil, etanólgerjun o.s.frv. (sjá að ofan).

Markmið þessa verkþáttar er að reyna að átta sig á umfangi og staðsetningu þeirra landsvæða sem gætu komið til greina í þessu samhengi. Margir þættir hafa áhrif á það hvar slík ræktun kemur til greina. Ein mikilvægasta forsendan er að í dag sé viðkomandi landsvæði gróðursnautt eða gróðurlítið. Aðrir þættir sem hafa áhrif eru t.d. hversu auðvelt er að koma að vélum við ræktunina og hve auðvelt er að komast á svæðið þ.e. vegtengingar og fjarlægðir. Einnig þarf að taka tillit til landslagsþátta og sem og annarra hagsmuna. Hluti þessara greininga hefur þegar verið unninn sem lokaverkefni til B.S. prófs við LbhÍ. Niðurstöður þeirrar vinnu er hægt að nálgast á pdf-formi BS_Brink_Ritgerd_Samþætting á ræktun orkuplantna og landgræðslu. Megin niðurstaða þessarar greiningar er að alls gætu verið um 2.000 km2 af hálf- og lítt-grónum svæðum, sem megi nýta til samþættingar á ræktun orkuplanta og landgræðslu.