Nýting á lífrænum úrgangi til metanframleiðslu

Bakgrunnur

Brennsla jarðefnaeldsneytis er ein af megin orsökum þess að styrkur koltvísýrings (CO2) hefur aukist í andrúmsloftinu. Olíuverð hefur einnig farið hækkandi að undanförnu og eins er ljóst að það er farið að sneiðast á um olíulindir. Ávinningur af því að nýta lífrænan úrgang til eldsneytisframleiðslu getur verið margvíslegur. Með því t.d. að vinna metan úr kúamykju er verið að nýta orkuna sem bundin er í kolefnissamböndum hennar. Orkan er tekin úr vinnslunni á formi metans en hluti hennar tapast sem varmi og hluti verður eftir í óniðurbrotnum kolefnissamböndum. Köfnunarefni og önnur næringarefni verða að miklu leyti eftir í hratinu og það að því leyti áfram jafngott sem áburður og það var fyrir vinnslu.

Við brennslu á metangasinu losnar kolefnið út í andrúmsloftið sem koltvísýringur eins og þegar jarðefnaeldsneyti er brennt. Munurinn gagnvart andrúmsloftinu liggur í því að þegar jarðefnaeldsneyti er brennt er verið að bæta í andrúmsloftið koltvísýringi sem unnin var úr því fyrir milljónum ára, en við brennslu metangass, sem unnið er úr kúamykju losnar koltvísýringur sem var tekinn upp af þeim plöntunum, sem kýrnar voru fóðraðar á, aðeins nokkrum mánuðum áður. Losun þess koltvísýrings eykur því ekki styrkinn í andrúmsloftinu til lengri tíma litið. Sama gildir einnig um margt annað hráefni svo sem ef plönturnar eru nýttar beint til metanframleiðslu.

Án metanvinnslu brotna kolefnissamböndin í mykjunni niður í náttúrunni og orkan úr þeim nýtist þeim lífverum sem taka þátt í því niðurbroti. Með því að vinna metan úr mykjunni er því verið að veita orkunni í annan farveg sem við nýttum til okkar þarfa. Eftir vinnslu metans úr mykjunni verður til hrat, sem inniheldur hlutfallsega meira af næringarefnum og nýtist vel sem áburður t.d. á tún.

Margvíslegur ávinningur er af metanvinnslu úr lífrænum úrgangi;

  • Með henni er dregið úr brennslu jarðefnaeldsneytis og þar með unnið gegn auknum styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu.
  • Í mörgum tilfellum svo sem í haughúsum og á sorphaugum myndast metan við núverandi aðstæður og losnar út í andrúmsloftið. Metan er sjálft öflug gróðurhúsalofttegund og eru hlýnunaráhrif þess rúmlega tvítugföld á við sama magn af koltvísýringi. Það eitt að safna þessu gasi og brenna því leiðir því eitt og sér til verulegrar minnkunar í losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Orka sem annars var ekki aðgengileg er nýtt.
  • Vinnslan getur skilað fjárhagslegum ávinningi vegna minni kaupa á eldsneyti og/eða með orkusölu.
  • Orkuvinnsla úr innlendu hráefni sparar gjaldeyri. 
  • Framleiðsla metans stuðlar að atvinnu-og nýsköpun í landinu og getur fært atvinnu og nýja þekkingu í dreifðar byggðir landsins.
  • Aukin framleiðsla á metani stuðlar að fleiri valkostum varðandi eldsneyti á þau tæki og vélar sem til eru í landinu.

Ávinningur vinnslunnar er því umhverfislegur, orkulegur og efnahagslegur. Varðandi alla þessa þætti þarf þó að hafa ákveðna fyrirvara. 

 

  • Varðandi umhverfislegan ávinning þá er hann mjög viðkvæmur fyrir allri metanlosun úr kerfinu. Metan getur tapast úr vinnslunni með margvíslegum hætti svo sem vegna beins leka, einnig tapast ákveðinn hluti við hreinsun og uppfærslu hauggassins. Áframhaldandi gerjun í hratinu getur einnig valdið losun metans. Mikilvægt er að huga vel að öllum þessum þáttum til að stuðla að sem mestum umhverfislegum ávinningi.
  • Orkulegur ávinningur er mjög viðkvæmur fyrir öllum flutningum á hráefnum og hrati og geta langar flutningsleiðir gert það að verkum að orkulegur ávinningur verður lítill eða jafnvel enginn. Ef ræktað er sérstaklega fyrir metanvinnsluna er mikilvægt að takmarka alla notkun á tilbúnum áburði. Framleiðsla tilbúins áburðar er mjög orkufrek og einnig er tilbúinn áburður mjög dýr. Æskilegast er því ef hægt er að nýta hratið sem áburð og stuðla þannig að hringrás næringarefna og spara bæði orku og draga úr kostnaði.
  • Vinnslu metans fylgir ákveðinn kostnaður. Bæði stofnkostnaður og eins vinna og annar rekstrarkostnaður. Þessi kostnaður er mjög breytilegur eftir aðstæðum á hverjum stað og eins skiptir verulegu máli hvort þörf er á mikilli hreinsun og geymslurými.
  • Í umræðunni og við stefnumótun um aukna metanvæðingu í samgöngum, landbúnaði og annarri atvinnustarfsemi er mikilvægt að skoða umhverfislegan, orkulegan, rekstrarlegan og þjóðhagslegan ávinningur og ekki ávalt augljóst hver heildarniðurstaðan er. Flest bendir þó til þess að möguleikar á aukinni metanframleiðslu á Íslandi séu umtalsverðir og af henni geti verið verulegur ábati.